Fundargerð aðalfundar 2023

fundur haldinn í 26 apr. kl 20:00 í safnaðarheimili Kársneskirkju

  1. Fundur settur

Kosning fundarstjóra og fundarritara – Anna Karen kosin sem fundarstjóri og Harpa Halldórsdóttir sem fundarritari. Formaður setur fundinn og kynnir dagskrá fundarins.

  • Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins

Ásgeir Ásgeirsson formaður fer yfir skýrslu stjórnar. Breytingar urðu á stjórn á árinu 2022:

Ásgeir Ásgeirsson formaður, Sólveig Birgisdóttir gjaldkeri, Hákon Jónas ritari, Olga Kristjánsdóttir og Ingi GunnarJóhannsson varamenn. Formlegir fundir stjórnar á tímabilinu voru sjö. Formaður fjallar næst um framkvæmdanefnd en þar voru fimm fundir haldnir á árinu. Formaður fer yfir liðinn vetur:

  • Mikil vandkvæði með vatn á svæðinu á tímabilinu vegna frosts í jörðu og almennt var harður vetur. Stjórn ítrekar við alla sumarbústaðareigendur að skoða vel sína bústaði.
  • Keyptir voru vatnshæðaskynjarar á tímabilinu og settir í vatnstanka. Með því er hægt að fylgjast náið með vatnsstöðu tankanna í gegnum netið. Hægt verður að skoða vatnsstöðuna á heimasíðu félagsins þegar uppsetningu er lokið.  Stefnt skal að því að laga dýpt lagna á svæðinu fyrir næsta vetur.
  • Vegir og vegamál – heflað var einu sinni á tímbilinu
  • Snjómokstur var einu sinni á tímabilinu.
  • Á tímabilinu voru göngustígar lagfærðir og bekkir endurnýjaðar. Halda skal áfram á yfirstandandi tímabili með lagfæringar á lundinum og aðgengi að honum, Eyrarskógarmegin. Einnig er þörf á grisjun á lúpínu þar sem lagnir liggja meðfram veginum og einnig getur reynst erfitt fyrir bíla að mætast á veginum.
  • Girðingar hafa haldið en fjárfest var í rafstöðvum og sólarsellum.
  • Saltdreifari var keyptur og notaður til að binda slitlag.
  • Verslunarmannahelgin verður á sínum stað.
  • Formaður ítrekar að öll þessi vinna sé ekki sjálfgefin og sé í sjálfboðavinnu.
  • Reikningar félagsins lagðir fram

Fundarstjóri leggur til að reiknngar verði lagðir fram. Sólveig gjaldkeri fer yfir.

               Rekstrarreikningur 1.12022 – 31.12. 2022:

Heildartekjur – 3.929.242

Heildargjöld  – 3.360.739

Tekjur umfram gjöld – 568.503

Efnahagsreikningur 31.12.2022

Eignir     3.835.599                                                        Eigið fé og skuldir 3.835.599

Sólveig útskýrir nánar nokkra liði rekstrarreiknings: Enginn kostnaður við ruslagáma á árinu 2022 miðað við 2021 þar sem ekki voru fengnir gámar. Enginn reikningur fyrir snjómokstrinum hefur enn borist.

  • Umræður um skýrslu stjórnar og ársreiknings félagsins

Engar fyrirspurnir komu úr sal vegna ársreiknings félagsins. Ársreikningurinn þar með samþykktur.

  • Ákvörðun árgjalds

Formaður leggur til að halda árgjaldi óbreyttu. Engar athugasemdir komu fram. Samþykkt

Steini E77 kemur með athugasemdir við uppsetningu fundarins og hefði viljað hafa yfirferð á rekstar og framkvæmdanefnd áður en árgjaldið var ákveðið og samþykkt,  þar sem áætlaður kostnaður er hærri en heildartekjur síðasta árs. Endurtekur eldri tillögu um að leggja bundið slitlag á vegina.

Ólafur E89 – spyr hver sé besta leiðin við rekja vatnsleiðslur án þess að þurfa að grafa langar vegalengdir að bústaðnum.

Guðjón í Framkvæmdanefnd svarar  í stuttu máli að ef maður veit hvar á að byrja þá er hægt að elta. Guðjón notar tæki segir ef til staðar er holrými þarna undir.

Formaður svarar fyrirspurn vegna uppsetningu á dagskrá fundarins. Á síðasta ári var árgjaldið hækkað mikið og því gert ráð fyrir að fara í bundið slitlag en sökum þess ástands hefur verið viðvarandi í vetur fer allur peningurinn fer í vatnið að þessu sinni. Hann samþykkir að aðafundurinn hafi e.t.v verið full fljótur  að samþykkja gjaldið þar sem ekki var búin að kynna framkvæmdaáætlun ársins 2023.

Gísli E33 – telur það afar bjartsýnt að tala um malbik á vegina. Áður hafi borist tilboð í afmarkaðan kafla upp á 7,5 milljónir og að það sé 8 ára gamalt verð. Vegirnir séu nokkuð góðir og að nýta eigi frekar fjármagnið í að laga vatnslagnir. Hann ráðleggur skógarbúum að keyra hægar.

Sólveig gjaldkeri – þakkar fyrir holuálfana sem eru að fylla í holurnar á veginum.

Íbúar í bústað E73 – vilja koma á framfæri að neðsti kaflinn sé mjög grýttur og það sé mikið af stórgrýti á veginum.  Taka undir fyrri umræðu um að minnka hámarkshraða á svæðinu.

  • Kosning stjórnar

Sama stjórn gefur kost á sér áfram, Hákon Jónas gefur ekki kost á sér, Sigurjón Ragnar gefur kost á sér í hans stað.

Engin mótframboð og stjórn því samþykkt.

  • Kosning skoðunarmanna

Steini Þorvaldsson og Sigrún Erlendsdóttir gefa kost á sér áfram

  • Önnur mál.

Ólafur E 31–hefur máls á umferð á göngustíg sem liggur í gegnum land er tilheyrir E 35. Bústaður var seldur á dögunum. Hann telur að fyrri eigandi hafi ekki haft rétt til að loka göngustígnum. Ólafur les úr lögum um náttúruvernd máli sínu til stuðnings. Ólafur vill að næsti eigandi fái þau skilaboð að ekki sé heimilt að loka göngustígnum og hindra för gangandi vegfarenda.

Ásgeir formaður hefur talað við sveitarfélagið vegna þessa og göngustígurinn er ekki á neinni teikningu. Samkvæmt eldra skipulag í kringum 1990, þá er teiknaður göngustígur á milli lóða 34&35. Síðan þá hefur orðið breyting á hnitum lóða á öllu svæðinu. Formaður myndi ekki sætta sig við að fólk væri að ganga í gegnum sitt land og telur að fyrri eiganda hafi verið í lófa lagt að banna og loka göngustígnum. Staðsetning á milli lóða er mýri og mjög bratt og erfitt að viðhalda göngustíg. Lóðin er í umsjá landeiganda. Landeigandi vill ekkert aðhafast. Fyrri eigandi vildi ekki sættast á tillögur stjórnar. Ákveðið er að sjá til með viðbrögð nýs eiganda.

Stjórn og framkvæmdastjórn er þakkað fyrir vel unnin störf!

Fundi slitið

Fylgirit samantekt fundargerða framkvæmdanefdar 2022

Fundargerðir framkvæmdanefndar samantekt apríl 2022 til apríl  2023

Nefndin hefur haldið 5 fundi þar sem farið var yfir eftirfarandi atriði:

  1. Vatnsmálin hafa tekið mesta tímann aðallega frá áramótum og fram til dagsins í dag en eins og allir hafa orðið varir við hefur frostið bitið og veturinn verið harður. Sá viðsnúningur hefur þó orðið að tankarnir halda og ekki hefur verið teljandi vatnsskortur nema á einni stofnæð Eyrarskógsmegin þ.e frá no 80 og niður eftir. Að tillögu Pálma í E16 voru keyptir vatnshæðarskynjarar sem settir voru upp í vatnstankana bæði Hrísabrekku og Eyrarskógsmegin. Guðjón Ingvi og Hrafn Leó sonur hans hafa haft veg og vanda af allri þessari framkvæmd en talsvert flókið var að koma búnaðnum fyrir og stilla hann inn. Í dag er hægt að fylgjast með vatnsstöðunni í Eyrarskógstanknum í gegnum netið en eftir er að tengja búnaðinn Hrísabrekkumegin en til þess þarf að setja upp búnað til að komast í samband við netið. Þegar Því er lokið verða báðir mælar stilltir og verður hægt að skoða vatnshæðina í tönkunum okkar á netinu á heimasíðu félagsins. Nefndin telur sig vera búna að kortleggja hvar vandinn í stofnæðinni liggur og verður farið í að lagfæra og dýpka lagnirnar fyrir næsta vetur. Búið er að merkja inn á kort hvar stofnæðirnar liggja en greinilegt er að margir bústaðir eru með illa frágengnar lagnir og eru því vatnslausir þess vegna.
  2. Vegir og vegamál hafa verið í góðu lagi, borið var í vegi og heflað einu sinni á árinu auk þess sem saltað var reglulega bæði til að binda ryk og til að þétta toppefnið. Þetta gaf góða raun og hefur ástand vega á svæðinu verið óvenju gott. Ekki vannst tími til að lagfæra þau ræsi sem stefnt var á að skifta um en farið verður í þá vinnu við fyrsta tækifæri. Snjór var mokaður 1 sinni í vetur.
  3. Umhverfismálin hafa átt sinn stað, bekkir hafa verið endurnýjaðir og málaðir, stígar hafa verið lagfærðir, lundurinn hresstur upp og margt fleira. Hugmyndir eru um að gera lundinn aðgengilegri fyrir alla, lagfæra aðkomuna Eyrarskógsmegin, bera í göngustíga, fjölga bekkjum á gönguleiðum og gera umhverfið okkar meira aðlaðandi. Nefndin vill nota þennan vettvang sem er aðalfundurinn okkar og vekja athygli félagsmanna og skógarbúa allra að sú vinna sem unnin er í þágu félagsins er ekki sjálfgefin og hafa einstaklingar eins og Guðjón Ingvi og Anna, Arnar, Gísli, Lúlli, Rúnar ásamt fjölmörgum öðrum lagt til vélar og heilmikla vinnu til að viðhalda og gera umhverfið okkar betra endurgjaldslaust. Ráðist var í lúpínuslátt með aðstoð Arnars í E 6 í haust og  gaf það góða raun, þörf er á frekari grisjun á lúpínunni og kjarri meðfram vegum. Mælir nefndin með frekari vinnu til að hefta þetta þar sem lagnir liggja víða meðfram veginum auk þess sem oft er erfitt að mætast á vegna gróðurs, þessar framkvæmdir hafa orðið tilefni til harðrar orðræðu á netinu og vill nefndin árétta að Þessar aðgerðir eru nauðsynlegar til að hægt sé að fara um skóginn, lóðarmörk eru hvergi nær vegi en 3 metrar og mun nefndin halda áfram þeirri vinnu að grisja meðfram öllum stofnvegum allt að 3 metrum. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Eins er vert að vekja athygli skógarbúa á vinnudeginum okkar en hann hefur verið notaður m.a. til að grisja og taka til í nágrenninu okkar.

  • Girðingar hafa haldið hjá okkur og hefur Guðjón séð um að viðhalda þeim og halda sauðfé og hestum frá sumarhúsabyggðinni. Fjárfest var í tveimur rafstöðvum og sólarsellum til að halda rafmagni á girðingum og m.a. til að leysa af hólmi stöð sem hefur verið tengd hjá Önnu Karen í H30 en gamla stöðin var tengd inni í H30 með tilheyrandi tikki og hávaða. Nefndin þakkar Önnu og fjölskyldu umburðarlyndið í gegnum árin.
  • Fjárfest var í trjákurlara sem ekki stóð undir nafni og fengum við nýjan á haustmánuðum sem verur tekinn í gagnið í vor. Talsverðir barnasjúkdómar voru á garminum og varð samkomulag um að við fenjgum nýjan í staðinn. Saltdreifari var líka keyptur og hefur hann verið notaður óspart til að binda ryk og þétta slitlag. Nefndin leitaði til stjórnar með kaup á gám undir tæki, lagnaefni og annað sem tilheyrir rekstri 150 bústaða byggð og var ákveðið að kaupa 20 feta gám sem geymir þessa hluti í dag. Þessar fjárfesingar munu endast félaginu nokkur ár.
  • Hliðin hafa verið að mestu leyti í lagi eftir lagfæringar en þó er komið að endurnýjun á hliðinu Eyrarskógsmegin, en búnaðurinn er orðinn úreltur og slitinn. Nefndin hefur kynnt sér kostnað við endurnýjun og uppfærslur og liggur hann fyrir en auk þess er orðið aðkallandi að taka til í símanúmeraskrá gamla kerfisins og myndi slíkt gerast í kjölfarið á því.
  • Aðalfundurinn er vettvangur skoðanaskifta og tillagna, notum hann og vinnum saman að betra samfélagi. Skógarbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í að gera svæðið okkar betra, klippa greinar meðfram vegum og huga að heimæðum og lögnum að bústöðum. Framkvæmdanefndin vill að endingu þakka stjórn og félagsmönnum traust og trú, við vinnum að heilindum og eftir bestu getu fyrir okkur öll. Arnar, Andrés, Guðjón, Hrafn Leó, Gísli, Anna Karen, Lúlli, Anna, Gestur, Jenni, Rúnar og allir hinir sem hafa lagt hönd á plóg. Áfram gakk takk fyrir frábært starf.
Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.